18.1.2010 | 00:10
Silungapollur
Eftir að hafa hlustað á nokkur viðtöl og talað við fólk sem vistað var á Silungapolli á sínum tíma, hef ég ákveðið að segja sögu (reynslu) mína.
Að minsta kosti tvö ár vantar algerlega minningar í líf mitt, og er það tímabilið sem ég var á Silungapolli.
Ég veit ekki fyrir víst hversu lengi ég var vistaður þar og ekki ætla ég að fara út í að fjölyrða um þá erfiðleika sem voru í fjölskildu minni á þessum tíma, enda var ekki meiningin að ásaka neinn eða erfa neitt við neinn, það fólk hefur svo sannanlega þurft að taka út sínar þjáningar og brjótast út úr þeim erfiðleikum sem þá voru, heldur einungis að létta af mér þeirri gífurlegu þjáningu sem ég hef þurft að bera síðan ég kom frá þessum hræðilega stað.
Einstök minningarbrot hafa dúkkað upp í gegnum tíðina og eru þau öll frekar slæm svo fyrir rest ákvað ég að láta staðarnumið og hafa þetta bara gleymt og grafið. Ekki hefur það hjálpað mér mikið að rifja upp erfiða tíma sem tengjast Silungapolli, en kannski með því að raða saman þessum brotum og tala um þau þá kannski kemst ég endanlega fyrir þau, og næ að kveðja þá fortíð sem þeim fylgir. Hvernig krakki ég var fyrir og eftir dvöl mína á Silungapolli ætla ég ekki að tala um hér en eitt er víst að sú persóna sem fór frá Silungapolli var ekki sú sama og kom þar.
Hér koma nokkrar minningar:
Ég man eftir að ég var heltekinn af sorg og allir vöðvar voru svo spentir að mig verkjaði á morgnanna, og svo var stór hnútur í maga mínum að mér fanst ég hafa stein þar.
Ég man eftir því að hafa reynt til hins ýtrasta að kæfa niður grátinn á kvöldin til að sleppa við barsmíðar eldri drengja eða stærri sem voru í herberginu, því ég var laminn ef að þeirra sögn hélt fyrir þeim vöku.
Ég minnist þess að ég lá að degi til veikur í rúmi mínu að ég grátbað mér vægðar og bað að einhver annar mundi fullnægja kynþörfum kvalara míns þar sem ég var svo máttfarinn af einhverri pest. En eins og þeir vita sem reynt hafa lokar fólk sig frá veruleikanum þegar kemur að svona stundum, en í þetta skiftið var það mér ofviða.
Ég man að ég lá skelfingulostinn og reyndi af fremsta megni að láta ekki heirast neitt í mér eða láta sjást neina hreyfingu á meðan drengur í öðru rúmi var barinn með einhverju og það var ekki fyrr en einhver kom inn sennilega fóstra að ég sá allt blóðið og drengurinn hálf meðvitundarlaus þar sem hann lá í rúminu alblóðugur, ég gleymi seint þeirri skelfingu sem þjakaði mig svo lengi á eftir.
Ég man hversu sárt mér fannst það að fá ekki að sjá og hitta bróðir minn sem var á annari deild á Silungapolli.
Svona eru allar þær minningar sem droppað hafa upp á þeim árum sem ég var að reyna að losa mig við þá heift og reiði sem í mér bjó.
Ég var um árabil algerlega tilfinningalega helfrosinn, og að tjá einhverjum ást eða væntumþykju var bara einfaldlega mér ofviða, hvort sem um var að ræða maka,börn eða aðra sem mér tengdust.
En þar kom að að ég þoldi ekki að rifja meira upp og ákvað að loka á þennann tíma og reyna heldur að rækta sálartetrið og koma mér í betra andlegt jafnvægi.
Mörg ár og mikill tími hefur farið í það á liðnum árum að vinna í og fá bót á andlegri heilsu minni, sálfræðingar og geðlæknar hafa þar gegnt miklu hlutverki og hef ég líka þurft að leita fanga víða til að komast í gegnum lífið.
Margar sjálfsmorðs hugleiðingar hafa verið að banka hjá mér og fyrir einhverja ótrúlega heppni eða inngrip einhverra hef ég sloppið þar sem óvænt truflun hafa afstýrt kveðjustund frá þessum erfiða heimi, get ég nefnt dæmi eins og að bíll drap á sér, óvænt kom einhver að þar sem ég var búinn að munda byssu, lyfjaskamtur reyndist ekki nægilega stór og ég vaknaði fárveikur eftir 26 tíma einn í herberginu mínu lyggjandi í ælu minni. Já oft hafa aðeins sekúntubrot skilið á milli lífs og dauða.
En sem betur fer tel ég að nú loksins á fullorðins árum, komin að fimmtugu, er að ég tel kominn yfir það versta þó nokkuð sé í land með að ná þeim andlega bata sem mundi teljast til að vera venjulegur maður.
Frá minni hendi fyrirgef ég öllum þeim sem hlut áttu að máli, bæði þeim sem misnotuðu mig og aðra sem þarna voru, og er það einlæg ósk mín að þeir hinir sömu hafi fengið lausn sinna mála.
Megi Guð leiða ykkur til betri vegar.
Sæmundur vistaður á Silungapolli sennilega 1967.
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Eygló, 18.1.2010 kl. 02:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.